Dómur um skaðabótaábyrgð vinnuveitanda
25.09.2019Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli sem sjómaðurinn A höfðaði á hendur B hf. vegna afleiðinga slyss sem hann varð fyrir við vinnu sína. Slysið atvikaðist með þeim hætti að A rann til og rak vinstri fót upp undir koll í klefa sínum. Við þetta fékk hann sár á litlu tá sem olli beinsýkingu og beineyðingu og þurfti í kjölfarið að fjarlægja tána og hluta af ristarbeini. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ótvírætt væri að um hafi verið að ræða slys í skilningi 1. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Þá var A ekki talinn hafa sýnt af sér vítavert gáleysi í skilningi síðari málsliðar ákvæðisins. Varðandi mat á því hvort skilyrði væru til að fella á B hf. skaðabótaábyrgð á líkamstjóni A, og þar með áhættuna af því að hann hafi vegna sjúkdóms síns verið berskjaldaðri en almennt gerist fyrir því að lítilsháttar áverki á fæti gæti haft þær afleiðingar sem raun varð á, taldi rétturinn að horfa yrði einkum til þriggja atriða. Í fyrsta lagi að A hefði verið haldinn sjúkdómnum áður en hann varð fyrir slysinu, í öðru lagi að sjúkdómurinn hefði ekki fram að því skert vinnugetu hans eða hamlað honum á annan hátt en þann að hann var háður reglubundinni lyfjatöku og í þriðja lagi hefði sárið, sem A hlaut við slysið, raungert þá hættu sem sjúkdómur hans hafði í för með sér. Loks var talið að afleiðingar slyssins gætu ekki talist svo langsóttar að komið væri út fyrir mörk þess, sem B hf. yrði að bera áhættu af. Að virtum þessum atriðum var talið að nægilega mætti rekja líkamstjón A til slyssins svo að B hf. yrði látinn bera skaðabótaábyrgð á því.
Dóminn í heild sinni má lesa hér.