Dómur um rétt umsækjanda um leyfi til að taka barn í varanlegt fóstur til að sækja námskeið samkvæmt reglugerð nr. 804/2004 um fóstur

30.10.2019

Í dag var kveðinn upp dómur í máli þar sem F krafðist þess að felldur yrði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála 27. maí 2016 þar sem staðfest var ákvörðun B um að hafna umsókn hennar um leyfi til að taka barn í varanlegt fóstur. Í málinu deildu aðilar um hvort B hafi verið heimilt að synja F um leyfi til að taka barn í fóstur án þess að gefa henni færi á að sækja námskeið samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 804/2004 um fóstur. Með dómi héraðsdóms var B sýknuð af kröfu F en í hinum áfrýjaða dómi var komist að gagnstæðri niðurstöðu. Vísaði Hæstiréttur til þess að við úrlausn málsins yrði fyrst að líta til þess að B hefði metið það svo að F fullnægði ekki þeim almennu skilyrðum sem fósturforeldrar þurfi að fullnægja samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 804/2004 og hafi tekið ákvörðun í málinu sem var andstæð niðurstöðu hins lögbundna umsagnaraðila, fjölskylduráði G, án þess að boða F á fyrrgreint námskeið. Var meðal annars talið að þótt umsagnir barnaverndarnefnda væru ekki bindandi fyrir B væru þau mikilvæg gögn í könnun á hæfni umsækjanda og við þær aðstæður sem uppi voru við afgreiðslu B á erindi F hefði verið kominn upp vafi um hvort hún fullnægði almennum skilyrðum 6. gr. fyrrnefndrar reglugerðar og að tilhögun mats á hæfni einstaklings til þess að fullnægja kröfum sem gerðar væru til fósturforeldris samkvæmt II. kafla reglugerðar nr. 804/2004 væru ekki skýr. Taldi rétturinn að í tilviki F hafi borið við það mat sem fram fór að líta sérstaklega til þess markmiðs laga um fatlaða að F yrðu við úrlausn máls skapaðar sem sambærilegastar aðstæður og ófötluðum einstaklingum án þess þó að raskað yrði þeim grundvallarhagsmunum barns að það sem væri því fyrir bestu væri ávallt í fyrirrúmi. Var því talið að sú ákvörðun B að synja F um leyfi til að gerast fósturforeldri á þessu stigi málsins án þess að gefa henni áður kost á að sækja umrætt námskeið hafi verið í andstöðu við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var því niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

 

Dóminn í heild sinni má lesa hér.