Dómur um skyldu Landsréttar til að kveðja til sérfróðan meðdómsmann við meðferð forsjársviptingarmála

12.02.2020

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar sem bæði héraðsdómur og Landsréttur höfðu fallist á kröfu B um að A yrði sviptur forsjá tveggja barna sinna á grundvelli a. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Fyrir Hæstarétti var einungis deilt um hvort ómerkja bæri dóm Landsréttar. Byggði A á því að málsmeðferð fyrir Landsrétti hefði verið ábótavant þar sem sérfróður meðdómsmaður hefði ekki verið kvaddur til setu í dóminum svo sem lögskylt væri samkvæmt 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga. Í dómi Hæstaréttar var talið að við meðferð forsjársviptingarmála, sem rekin væru fyrir héraðsdómi samkvæmt 29. gr. barnaverndarlaga, bæri dómara samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laganna að kveðja til sérfróðan meðdómsmann eða meðdómsmenn, nema við ættu undantekningar þær sem greindi í ákvæðinu. Þá vísaði Hæstiréttur til þess að lög um dómstólaskipan landsins gerðu ráð fyrir því að sérfróður meðdómsmaður eða eftir atvikum meðdómsmenn gætu tekið sæti í Landsrétti við meðferð máls þar fyrir dómi þegar þess væri þörf. Með því að engin undantekning væri gerð í lögum frá þeirri skipan mála þegar forsjársviptingarmál væri rekið fyrir Landsrétti gilti meginreglan einnig við rekstur slíks máls þar fyrir dómi. Var því til samræmis við meginreglu 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga talið að borið hefði að kveðja til sérfróðan meðdómsmann við meðferð málsins fyrir Landsrétti. Þar sem það hafði ekki verið gert hefði skipan Landsréttar við meðferð málsins ekki verið í samræmi við áskilnað laga og var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og málinu vísað aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar. 

Dóminn í heild sinni má lesa hér.