Dómur um forsjársviptingu

10.03.2020

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar sem BH krafðist þess að A og B yrðu svipt forsjá tveggja barna sinna á grundvelli a., c. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í málinu lá meðal annars fyrir álitsgerð sálfræðings um forsjárhæfni B þar sem B var talin skorta nægjanlega hæfni til að fara með forsjá barnanna og matsgerð dómkvadds matsmanns þar sem fram kom að vilji barnanna væri afar skýr um að þau vildu ekki búa hjá A og B. Í dómi Hæstaréttar kom fram að rétt til fjölskyldulífs, sem varinn væri af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, skyldi ætíð meta út frá hagsmunum barnsins og rétti þess til einkalífs og friðhelgi samkvæmt 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Í þessu fælist að líta bæri til viljaafstöðu barns við úrlausn um málefni þess eftir því sem frekast væri kostur. Hæstiréttur taldi sannað að börnin upplifðu verulegan ótta við A þannig að heilsu þeirra og þroska væri hætta búin í umsjá hans sökum þess að breytni hans væri til þess fallin að valda börnunum alvarlegum skaða. Þá var talið að forsjárhæfni B væri skert og að vandséð væri að B væri unnt að byggja upp tengsl og traust við börnin að nýju. Með vísan til þessa og því að börnin hafi sýnt sterkan vilja til þess að búa áfram hjá fósturforeldrum var það talið þeim fyrir bestu að fallast á kröfu BH um forsjársviptingu á grundvelli d. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga.

 

 

Dóminn í heild sinni má lesa hér.