Máli málsóknarfélags vísað frá héraðsdómi vegna skorts á lögvörðum hagsmunum
31.03.2020Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í máli sem málsóknarfélagið N höfðaði á hendur M og L ehf. til ógildingar á rekstrarleyfi sem Fiskistofa hafði veitt L ehf. til reksturs sjókvíaeldis á laxi í Reyðarfirði. Að málsóknarfélaginu stóðu tilgreind veiðifélög. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í ljósi markmiða laga um lax- og silungsveiði nr. 61/2006 og að því gættu að veiðiréttarhöfum væri skylt að hafa með sér félagsskap í því skyni að markmiðunum yrði náð, yrði að leggja til grundvallar að veiðifélög gætu í skjóli umboðs sótt fyrir dómstólum kröfur sem lytu að veiðirétti félagsmanna sinna og þeir hefðu lögvarða hagsmuni af að fá úrlausn dómstóla um, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Í dóminum var vísað til þess að hvorki félagsmenn í veiðifélögunum né félögin sem slík hefðu átt aðild að stjórnsýslumáli um útgáfu umrædds rekstrarleyfis. Réttur N til að bera undir dómstóla hvort farið hefði verið að lögum við útgáfu rekstrarleyfisins yrði því ekki reistur á aðild þeirra að stjórnsýslumálinu. Þegar metið væri hvort sá sem hefði óbeinna hagsmuna að gæta af úrlausn stjórnsýslumáls gæti borið lögmæti stjórnvaldsákvörðunarinnar undir dómstóla yrði að taka mið af því hvort hagsmunir hans af ákvörðuninni væru verulegir og meiri en hvers annars í samfélaginu, til dæmis vegna nálægðar við leyfisskylda starfsemi sem ákvörðun stjórnvaldsins heimilar. Taldi rétturinn að N gæti ekki reist heimild sína til höfðunar máls til ógildingar á umræddu starfsleyfi á reglum grenndarréttar sökum þess hversu langt þær laxveiðiár sem um ræddi í málinu væru frá sjókvíaeldinu í Reyðarfirði. Loks kom fram að til þess að fullnægt væri skilyrðum um lögvarða hagsmuni samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 yrði N að sýna fram á eða gera líklegt að félagsmenn hans hefðu orðið fyrir tjóni vegna umræddrar starfsemi en það hefði hann ekki gert. Var málinu því vísað frá héraðsdómi.
Dóminn í heild sinni má lesa [hér].