Dómur um heimild Lögmannafélags Íslands til að bera fram kvörtun á hendur lögmanni fyrir úrskurðarnefnd lögmanna

28.04.2020

Í dag var kveðinn upp dómur í máli sem lögmaðurinn J höfðaði á hendur Lögmannafélagi Íslands (L) til ógildingar á úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna þar sem honum var gert að sæta áminningu vegna tilgreindrar framgöngu sinnar í samskiptum við dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur. Í málinu greindi aðila á um hvort L hefði heimild til að leggja fram kvörtun á hendur félagsmanni til úrskurðarnefndarinnar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn væri sérhverjum þeim sem teldi að lögmaður hefði í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríddi gegn lögum eða siðareglum heimilað að leggja fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum vegna þess. Þrátt fyrir framangreint orðalag ákvæðisins yrði það þó ekki skýrt á þann veg að samkvæmt því gæti hver átt sök sem vildi, enda væri það skilyrði jafnframt sett að sá hinn sami teldi að gert hefði verið á „sinn hlut“. Yrði ekki talið að í ákvæðinu fælist frávik frá almennum reglum stjórnsýsluréttar um nauðsyn beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna til kæruaðildar. Var hvorki talið að í fyrrgreindu lagaákvæði fælist nægilega skýr lagaheimild fyrir L til að bera fram kvörtun vegna hinnar meintu háttsemi J né að hagsmunir félagsins vegna hennar væru slíkir að félagið teldist hafa öðlast þann rétt. Var því fallist á kröfur J og úrskurðurinn felldur úr gildi.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.