Dómur um valdheimildir stjórnvalda við stjórn fiskveiða

04.05.2020

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli sem H ehf. höfðaði á hendur íslenska ríkinu til viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir með því að hafa ekki notið tekna af áframhaldandi veiðum þegar veiðidögum á grásleppuvertíðinni 2017 var fjölgað um 10 daga með reglugerð nr. 374/2017. Reglugerðin tók gildi eftir að H ehf. hafði hætt grásleppuveiðum þar sem leyfilegt veiðitímabil hans var liðið og sótt um leyfi til strandveiða. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að nægilega væri komið fram að nokkurt óhagræði hefði verið af því fyrir H ehf. og aðra þá sem voru í sömu stöðu að hefja aftur grásleppuveiðar eftir að þeim hefði verið hætt. Til þess væri að líta að stjórnvöld hefðu gripið til ýmissa úrræða til að koma til móts við þá sem fengið hefðu leyfi til grásleppuveiða og draga eftir mætti úr röskun á innbyrðis jafnræði þeirra á milli. Hefði meðal annars verið bætt við reglugerðina ákvæði til bráðabirgða þar sem bátum, sem hætt hefðu veiðum og tekið upp net sín áður en veiðidögum var fjölgað, var heimilað að hefja veiðar að nýju þrátt fyrir 3. gr. reglugerðar nr. 164/2017 um samfelldar veiðar, auk þess sem Fiskistofa hefði tilkynnt að fresta mætti upphafsdegi strandveiða. Var vísað til þess að þótt vafi kynni að hafa leikið á heimild Fiskistofu til að leyfa grásleppuveiðar í slíkum tilvikum hefði H ehf. getað sér að vítalausu haldið til veiða enda hefði hann ekki getað fengið úr því álitaefni skorið fyrirfram. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að fjölgun veiðidaga með fyrrnefndri reglugerð hefði ekki farið í bága við lög og skorti því á að fullnægt væri skilyrði sakarreglunnar um ólögmæta háttsemi svo bótaábyrgð yrði felld á Í. Þegar af þeirri ástæðu var dómur Landsréttar staðfestur um sýknu Í.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.