Dómur um greiðslu skuldar á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar
25.05.2020
Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar sem L hf. krafði S um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar S á láni til S ehf. vegna kaupa á nánar tilgreindri fasteign. S ehf. ráðstafaði fasteigninni síðar til S40 ehf. sem hafði tekið að sér að reisa nýtt hús á lóðinni. S byggði sýknukröfu sína meðal annars á því að þar sem lánið hefði verið tryggt með 3. veðrétti í fasteigninni hefði L hf. brotið gegn trúnaðarskyldum gagnvart sér með því að leyfa greiðslu óveðtryggðra skulda áður en söluverði fasteignarinnar var ráðstafað inn á lánið. Í dómi Hæstaréttar var talið að með samkomulagi á milli S ehf. og S40 ehf. hefði síðarnefnda félagið fengið forræði á sölu eignanna og ráðstöfun söluandvirðis í samráði við L hf. Í samkomulaginu hafi falist að S40 ehf. hafði heimild til að ráðstafa söluandvirðinu með þeim hætti að kröfur á hendur félaginu vegna byggingarinnar sem ekki voru veðtryggðar myndu greiðast áður en aðrar kröfur yrðu efndar. L hf. hafi því verið rétt að samþykkja að söluandvirði yrði ráðstafað til greiðslu krafna á hendur félaginu samkvæmt reikningum vegna framkvæmdanna áður en veðkrafa á 3. veðrétti yrði greidd. Var S gert að greiða L hf. umkrafða fjárhæð.
Dóminn í heild sinni má lesa hér.