Dómur um skaðabótaábyrgð vinnuveitanda og mat á árslaunum samkvæmt 7. gr. skaðabótalaga
26.06.2020
Í dag kvað Hæstiréttur upp dómi í máli þar sem A krafði T hf. um skaðabætur vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir við það að veggskápur féll ofan á hana er hún var við vinnu sem tanntæknir á tannlæknastofunni B slf. Hafði A hafið störf hjá B slf. þremur vikum fyrir slysið og var starfshlutfall hennar 70%. Í málinu deildu aðilar um hvort stofnast hefði til skaðabótaábyrgðar vinnuveitanda sem T hf. bæri að bæta úr ábyrgðartryggingu og ef svo væri hvort bætur fyrir varanlega örorku ætti að reikna miðað við árslaun A eftir meginreglunni í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eða hvort meta ætti árslaunin sérstaklega samkvæmt 2. mgr. sömu greinar. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að lögmaður T hf. hafði sent lögmanni A fyrirvaralausa yfirlýsingu T hf. um að ákveðið hefði verið að una dómi Landsréttar og hefði með því sakarefni málsins verið ráðstafað og áfrýjun málsins ósamrýmanleg því. Var því kröfum T hf. í aðalsök vísað frá Hæstarétti. Þá var talið að þátttaka A á vinnumarkaði á árunum 2011 til 2013 hefði verið frábrugðin fyrri atvinnuþátttöku hennar. Með hliðsjón af því að A hefði verið í námi og atvinnulaus hluta af umræddu tímabili, auk þess sem hún hefði verið í hlutastarfi og unnið um skeið við annað en hún hafði menntun til, var talið að aðstæður hennar hefðu verið óvenjulegar. Laun hennar á því árabili voru því ekki talin gefa rétta mynd af framtíðartekjum hennar og af þeim sökum var talið að meta yrði árslaun hennar sérstaklega eftir heimild í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þá var talið eftir gögnum málsins að ætla mætti að A hefði aukið starfshlutfall sitt þegar börn hennar yrðu eldri auk þess sem gera mætti ráð fyrir að hún hefði nýtt starfsgetu sína við heimilisstörf sem svaraði til skerts starfshlutfalls en þau væru samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga lögð að jöfnu við launatekjur, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Var fallist á með A að miða bæri árslaun hennar við þau laun sem hún hafði hjá B slf. miðað við fullt starf.
Dóminn í heild sinni má lesa hér.