Hafnað að örorkulífeyrir frá lífeyrissjóði í framtíðinni kæmi til frádráttar skaðabótum
24.09.2020
Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar sem A krafði V hf. um eftirstöðvar skaðabóta vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir við störf um borð í fiskiskipi. Í málinu deildu aðilar um rétt V hf. til að draga frá bótum vegna varanlegrar örorku eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. V hf. byggði á því að miða skyldi áætlaðar framtíðargreiðslur til A við þær greiðslur sem hann naut frá lífeyrissjóðum á stöðugleikapunkti en til vara að miða skyldi rétt A til greiðslna frá lífeyrissjóðum við 50% varanlega örorku A. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að þótt upplýsingar um greiðslur sem tjónþoli hefði notið á stöðugleikapunkti gæfu að jafnaði vísbendingu um hvaða greiðslna hann mætti vænta til framtíðar, yrðu þær upplýsingar ekki einar og sér lagðar til grundvallar við ákvörðun um frádrátt. Þá ákvörðun yrði að byggja á heildarmati á því hvort og þá hvaða réttinda til greiðslna tjónþoli myndi njóta í framtíðinni. Til grundvallar matinu yrði að leggja allar upplýsingar sem fyrir lægju þegar það færi fram og unnt væri að draga af ályktanir um hvernig réttindi til slíkra greiðslna myndu þróast í framtíðinni. Hæstiréttur leit til þess að greiðslur sem A naut á stöðugleikapunkti voru tímabundnar til þriggja ára og að gera mátti ráð fyrir því að þær tækju breytingum að þeim tíma liðnum vegna ólíkra matsforsendna í samþykktum lífeyrissjóðsins LV. Þá hefði legið fyrir við bótauppgjörið endurmat trúnaðarlæknis lífeyrissjóðsins LV, um að örorka A til almennra starfa væri minni en 40%, sem leiddi til þess að A naut ekki örorkulífeyris þegar það fór fram né síðar. Með hliðsjón af því var ekki fallist á með V hf. að miða ætti áætlun um rétt A til örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum í framtíðinni við þær greiðslur sem hann naut á stöðugleikapunkti. Þá var ekki fallist á með V hf. að rétt væri að miða við að A myndi í framtíðinni njóta örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum miðað við áætlaða 50% örorku. Í því tilliti var litið til ólíkra forsendna að baki mati á fjárhagslegri örorku samkvæmt skaðabótalögum annars vegar og örorkumati trúnaðarlæknis lífeyrissjóðsins LV hins vegar. Þá hefði V hf. ekki freistað þess að hnekkja forsendum eða niðurstöðum þess örorkumats sem lífeyrissjóðurinn byggði á þá ákvörðun sína að greiða A ekki örorkulífeyri. Loks renndu gögn um tekjur A fyrir fullt starf í landi á árunum 2018 til 2020 stoðum undir að A hefði ekki haft réttmæta ástæðu til að fá örorkumat lífeyrissjóðsins endurskoðað í þeim tilgangi að sækja örorkulífeyri úr sjóðnum. Voru kröfur A því teknar til greina.
Dóminn í heild sinni má lesa hér.