Reykjavíkurborg talið heimilt að synja A um fjárhagsaðstoð á grundvelli tekna maka
08.10.2020
Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli sem A höfðaði á hendur Reykjavíkurborg og krafðist þess að ógiltar yrðu ákvarðanir R og úrskurður úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þar sem umsókn hennar um fjárhagsaðstoð var synjað á grundvelli tekna maka hennar. Ágreiningur málsins laut að því hvort R hefði með synjun sinni um fjárhagsaðstoð til A brotið gegn grundvallarréttindum hennar samkvæmt 65. og 76. gr. stjórnarskrárinnar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að af því lögbundna fyrirkomulagi velferðarkerfisins leiddi að þegar fjárhagslegum stuðningi ríkisins sleppti kæmi það almennt í hlut sveitarfélaga að taka afstöðu til þess á grundvelli þeirra laga sem um það gilti sérstaklega hvernig fjárhagsaðstoð þeirra við íbúa sína yrði hagað til að tryggja þeim nauðsynlega framfærslu. Var talið að leggja yrði til grundvallar að það fyrirkomulag í reglum R að tekjur maka gætu haft áhrif til skerðingar á rétti manna til fjárhagsaðstoðar ætti sér fullnægjandi stoð í lögum. Þá var talið að fyrrnefnt fyrirkomulag reglna R ætti við málefnaleg rök að styðjast og að sú skerðing sem A sætti hefði ekki farið í bága við grundvallarreglur stjórnarskrárinnar. Var R því sýknað af kröfum A.
Dóminn í heild sinni má lesa hér.