Dómur um beitingu ákvæðis almennra hegningarlaga um brot í nánu sambandi

30.03.2022

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar sem sú háttsemi ákærða að hafa veist að fyrrverandi kærustu sinni á heimili hennar, ýtt henni þannig að hún féll niður stiga, tekið í hár hennar, skallað hana í höfuðið og tekið hana kverkataki með nánar tilgreindum afleiðingum var talin brot í nánu sambandi en ekki minniháttar líkamsárás eins og gert var í dómi Landsréttar. Hæstiréttur vísaði til þess að brotaþoli þyrfti ekki að verða fyrir beinum eða sjáanlegum líkamsáverkum eða öðru tjóni svo um væri að ræða brot í nánu sambandi. Það gæti þó komið til skoðunar við mat á grófleika brots. Áverkar hefðu verið víðs vegar um líkama brotaþola þótt hver um sig hefði ekki talist verulegur. Þá væri ljóst að hún hefði hlotið áverka vegna fallsins og hefði sú háttsemi ákærða verið einkar alvarleg. Árásin hefði í heild sinni verið til þess fallin að vekja mikla ógn hjá brotaþola en jafnframt væri fram komið að hún hefði orðið fyrir andlegu áfalli vegna árásarinnar. Hæstiréttur taldi að ákærði hefði með atlögunni á alvarlegan hátt og með ofbeldi ógnað heilsu brotaþola og velferð. Var refsing ákærða þyngd og ákveðin fangelsi í tíu mánuði en fullnustu hennar frestað meðal annars vegna tafa á meðferð málsins.

Dóminn má í heild sinni lesa [hér].