image
image

Sjö manna dómur í máli um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði

06.02.2024

Í dag var flutt mál fyrir Hæstarétti þar sem allir sjö dómarar réttarins sátu í dómi. Venjulega er dómur skipaður fimm dómurum en heimilt er að sjö dómarar taki sæti í sérlega mikilvægum málum. Áfrýjað var héraðsdómi beint til réttarins, án þess að málið gengi til Landsréttar, en slík áfrýjun er heimil þegar ekki þarf að fara fram sönnunarfærsla eða mat á munnlegum framburði aðila eða vitna fyrir héraðsdómi.

Ágreiningsefni málsins lýtur að rétti til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Áfrýjandi var starfandi erlendis og flutti til landsins skömmu áður en hún eignaðist barn sitt. Hún fékk greiddar lágmarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og reisir málatilbúnað sinn á því að það fari í bága við grunnreglu EES-samningsins um frjálsa för launþega. Vegna málsins hafði héraðsdómur aflað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins.

Á málflutning hlýddi fjöldi nemenda við lagadeild Háskóla Íslands. Fyrir málflutning ræddu Benedikt Bogason forseti dómsins og Björg Thorarensen hæstaréttardómari við nemendurna. Dóms í málinu er að vænta innan fjögurra vikna. Meðfylgjandi myndir voru teknar af þessu tilefni.