Dómur um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til Reykjavíkurborgar
20.11.2024
Í dag var kveðinn upp dómur í máli nr. 15/2024. Álitaefnið laut að því hvort Reykjavíkurborg hefði átt rétt á tilgreindum framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga tengdum rekstri grunnskóla og hvort fullnægjandi lagastoð hefði verið fyrir því að undanskilja Reykjavíkurborg slíkum framlögum með reglugerð. Hæstiréttur leit til forsendna að baki flutningi grunnskóla frá ríki til sveitafélaga árið 1996. Vegna þeirra hefðu jöfnunarframlög til Reykjavíkurborgar ekki verið reiknuð út og engin stjórnvaldsfyrirmæli sett um að fella þau niður. Ekki var því talið að löggjafinn hefði framselt vald til ráðherra til að meta hvort eða á hvaða grunni Reykjavíkurborg ætti rétt á framlögum úr sjóðnum. Ekki var fallist á með Reykjavíkurborg að fyrirmæli reglugerðar um tilgreind framlög úr jöfnunarsjóði hefði skort stoð í lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitafélaga í andstöðu við 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Var íslenska ríkið því sýknað af kröfum Reykjavíkurborgar.
Dóminn má lesa í heild sinni hér.