Málþing um þriggja þrepa dómskerfi
28.11.2024
Fimmtudaginn 21. nóvember hélt Hæstiréttur og dómstólasýslan málþing í dómsal Hæstaréttar um þriggja þrepa dómskerfi, ávinningur og áskoranir. Til málþingsins var boðið dómurum á öllum dómstigum ásamt lögfræðingum sem starfa hjá dómstólunum.
Málþinginu var skipt í tvo hluta en í þeim fyrri komu málflytjendur og fjölluðu um breytinguna sem varð á dómskerfinu árið 2018 frá þeirra sjónarhóli. Í þessum hluta tóku þátt lögmennirnir Berglind Svavarsdóttir, Óttar Pálsson og Stefán Andrew Svensson og Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari. Þessum hluta málþingsins stýrði Sigurður Tómas Magnússon, varaforseti Hæstaréttar. Í síðari hluta málþingsins tóku þátt dómarar á öllum dómstigum til að fjalla um hvernig til hefði tekist. Í þeim hluta tóku þátt Benedikt Bogason, forseti Hæstaréttar, Eiríkur Jónsson, varaforseti Landsréttar, Halldóra Þorsteinsdóttir, héraðsdómari og Ingibjörg Þorsteinsdóttir, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur. Þessum hluta málþingsins stýrði Kristín Haraldsdóttir.