Dómur um sáttir Símans hf. við Samkeppniseftirlitið

26.02.2025

Í dag var kveðinn upp dómur í máli nr. 25/2024. Álitaefnið laut að því hvort Síminn hf. hefði brotið gegn ákvæðum tveggja sátta við Samkeppniseftirlitið með því að gera Enska boltann á sjónvarpsrásinni Síminn Sport aðgengilegan fyrir þá viðskiptavini sína sem keyptu Heimilispakkann. Hæstiréttur féllst á með Samkeppniseftirlitinu að aðgerðir Símans hf. hefðu brotið gegn skilyrðum 3. gr. sáttar frá 15. apríl 2015, þar sem áskrifendur Heimilispakkans hefðu ekki átt þess kost að hafna aðgangi að sjónvarpsstöðinni Síminn Sport og halda öðrum þjónustuþáttum, bæði fjarskiptaþjónustu og annarri sjónvarpsþjónustu, nema með því að segja upp áskriftinni. Hefðu kaup þeirra á stökum þjónustuþáttum stefnda óhjákvæmilega haft umtalsverða hækkun á verði í för með sér. Þessi viðskiptakjör Símans hf. hefðu falið í sér að viðskiptavinir hans á einu sviði keyptu eða fengju þjónustu hans á öðru sviði gegn verði sem jafna mætti til skilyrðis um að kaupa þjónustuna saman. Símanum hf. var gert að greiða 400.000.000 króna sekt vegna brotsins. Hins vegar vísaði Hæstiréttur ætluðum brotum Símans hf. á sátt frá 15. janúar 2015 til nýrrar meðferðar og ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins.

Dóminn má lesa í heild sinni hér.