Dómur í máli ákæruvaldsins gegn Ágústi Arnari Ágústssyni, Einari Ágústssyni, Zuism trúfélagi, EAF ehf. og Threescore LLC.
12.03.2025
Í dag var kveðinn upp dómur í máli nr. 36/2024: Ákæruvaldið gegn Ágústi Arnari Ágústssyni, Einari Ágústssyni, Zuism trúfélagi, EAF ehf. og Threescore LLC. Ákærðu var gefið að sök fjársvik og peningaþvætti með því að hafa hagnýtt sér þá röngu hugmynd stjórnvalda að Zuism trúfélag uppfyllti skilyrði skráningar trúfélaga samkvæmt lögum nr. 108/1999 og þannig aflað trúfélaginu 84.727.320 króna sóknargjalda úr ríkissjóði sem það átti ekki rétt á. Ákærðu kröfðust frávísunar, heimvísunar eða ómerkingar málsins vegna ágalla á ákæru og dómi Landsréttar. Hæstiréttur taldi enga þá formannmarka á málinu sem stæðu því í vegi að það yrði lagður efnisdómur á það og staðfesti niðurstöðu Landsréttar um sakfellingu ákærðu en þó þannig að leggja yrði til grundvallar að ákærðu hefðu styrkt og hagnýtt sér óljósa hugmynd viðkomandi starfsmanna ríkisins fremur en beinlínis ranga hugmynd þeirra. Ákærðu hafi þannig sameiginlega markvisst hagnýtt sér þá óvissu sem hafði skapast um starfsemi Zuism trúfélags og aflað félaginu framlaga úr ríkissjóði sem það átti í reynd engan rétt á. Var staðfest niðurstaða Landsréttar um refsingu ákærðu og upptöku eigna hinna ákærðu félaga.
Dóminn má lesa hér.