Dómur vegna umfjöllunar um Brúnegg ehf. í Kastljósi

26.03.2025

Í dag var kveðinn upp dómur í máli sem félögin Bali ehf. og Geysir-Fjárfestingarfélag ehf. höfðuðu á hendur Matvælastofnun og Ríkisútvarpinu ohf. Félögin kröfðust viðurkenningar á skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem félagið Brúnegg ehf. taldi sig hafa orðið fyrir vegna umfjöllunar í sjónvarpsþættinum Kastljósi sem sýndur var á sjónvarpsrás Ríkisútvarpsins. Í þættinum var fjallað var um aðbúnað og velferð hæna í varphúsum fyrirtækisins og eftirlit Matvælastofnunar.Bali ehf. og Geysir-Fjárfestingarfélag ehf. höfðu fengið kröfurnar framseldar frá þrotabúi Brúneggja ehf.

Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu Landsréttar um að sýkna Matvælastofnun og Ríkisútvarpið af aðalkröfu félaganna um óskipta bótaábyrgð. Varðandi varakröfu á hendur Matvælastofnun vegna afhendingar stofnunarinnar á gögnum til Ríkisútvarpsins taldi Hæstiréttur umfjöllun stofnunarinnar og athugasemdir við starfsemi Brúneggja ehf. teljast vera gögn sem hefðu haft að geyma upplýsingar sem hefðu átt erindi til almennings. Matvælastofnun hefði því verið skylt að afhenda gögnin á grundvelli upplýsingalaga. Þrátt fyrir að samrýmst hefði góðri stjórnsýsluframkvæmd að óska eftir afstöðu fyrirtækisins áður en gögnin voru afhent taldi Hæstiréttur þó að ekki yrði séð að það hefði nokkru breytt um skyldu til afhendingar þeirra. Var því ekki fallist á að afhending gagnanna hefði verið til þess fallin að valda félaginu tjóni með ólögmætum og saknæmum hætti. Þá var ekki talið að afhending gagna á grundvelli upplýsingalaga og samskipti því tengd hefðu jafngilt liðsinni Matvælastofnunar við gerð þáttarins né viðtöl við starfsmenn hennar um starfsemina og fyrirkomulag eftirlits með Brúneggjum ehf. Hæstiréttur féllst því ekki á að Matvælastofnun væri bótaskyld vegna ætlaðs liðsinnis starfsmanna stofnunarinnar við gerð sjónvarpsþáttarins. Loks var ekki fallist á að ummæli starfsmanna Matvælastofnunar í sjónvarpsþættinum hefðu leitt til bótaskyldu stofnunarinnar.

Varðandi varakröfu á hendur Ríkisútvarpinu taldi Hæstiréttur ekki hafa verið sýnt fram á að í ummælum fréttamanna hefði verið farið rangt með staðreyndir eða að umfjöllunin hefði verið röng að öðru leyti. Taldi Hæstiréttur fréttamennina því hafa verið í góðri trú um sannleiksgildi ummæla sinna og hafa notið frelsis til að setja þau fram með þeim hætti sem gert var í sjónvarpsþættinum.

Voru Matvælastofnun og Ríkisútvarpið ohf. því sýknuð af kröfum Bala ehf. og Geysis-Fjárfestingarfélags ehf.

Dóminn í heild má lesa hér.