I. 930 - 965
Sigurður Nordal segir í riti sínu Íslensk menning, að venja sé að lýsa upphafi allsherjarríkis, á Íslandi og stofnun þjóðveldisins sem „óflekkuðum getnaði af almennri þörf á lögum og rétti, ...”
Um hafi verið að ræða tilraun til að sameina einstaklingsfrelsi og þörf fyrir samheldni, svo að leysa mætti friðsamlega úr málum manna í millum.
Hann segir: „Allt þjóðfélagið var eins og röst, þar sem mættust tveir straumar: annars vegar ágirni höfðingja til valda, virðing almennings fyrir ættgöfgi, atgervi, stórlæti, stórmennsku, - hins vegar virðing hvers frjáls manns fyrir sjálfum sér og sóma sínum, trauðleiki að láta hlut sinn og sætta sig við rangindi.”
Alþingi var frá upphaf löggjafarsamkoma Íslendinga og fór með æðsta dómsvald. Í Íslendingabók Ara fróða segir að Hænsna-Þórir hafi orðið sekur á Alþingi. Samkvæmt Hænsna-Þóris sögu lauk málinu með sekt og drápi Hænsna-Þóris. Þetta var í kringum 960. Af þessum orðum Ara fróða hafa fræðimenn ályktað að dómstóll hafi verið á Alþingi frá öndverðu eða a.m:k. fyrir stofnun fjórðungsdóms um 965. Um þennan dómstól er að sönnu lítið annað vitað.
II. Stofnun fjórðungsdóma um 965
Um 965 breyttist dómaskipan á Íslandi mikið. Þá voru settir á stofn svokallaðir fjórðungsdómar, einn fyrir hvern landsfjórðung. Þeir voru hver um sig æðsti dómstóll í málum úr sínum fjórðungi og komu allir saman á Alþingi.
Líklegast er talið að 36 menn hafi setið í fjórðungsdómi og að hver goði hafi nefnt einn mann í hvern dóm. Urðu allir að vera sammála um niðurstöðu.
Skömmu eftir árið 1000 var stofnaður svokallaður fimmtardómur sem náði til landsins alls. Þangað mátti skjóta málum sem dæmd höfðu verið í fjórðungsdómi. Hefur hugmyndin líklega verið sú að stuðla að réttareiningu í landinu. Í fimmtardómi sátu 48 menn, en 36 dæmdu mál, þar sem hvor aðili máls mátti ryðja 6 úr dómi. Meirihluti réð niðurstöðu. Þessi skipan dómsvaldsins hélst út þjóðveldisöldina.
Um fimmtardóm segir Sigurður Nordal:
„Með setningu fimmtardóms var þróun hinnar íslenzku dómskipunar lokið, og hún hafði náð fullkomnun, sem einstæð var á þeim tímum. Mál gátu gengið í gegnum þrjú dómstig, vorþingsdóm, fórðungsdóm og fimmtardóm, og unnt var að fá hvert mál útkljáð með dómi, þótt ekki fengist einróma niðurstaða. Það sýndi vaxandi traust almennings á lögum og rétti, að menn skyldu sætta sig við það, eftir reynslu þriggja aldarfjórðunga, að hlíta meiri hluta dómi. Skömmu eftir að fimmtardómur var settur voru hólmgöngur úr lögum numdar sem réttarúrskurður. ... Hann var hvolfsteinn hins forna þjóðskipulags.”
III. Jónsbókartímabilið 1262-1800
Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd árið 1262. Um þetta leyti hefst nýtt tímabil í dómstólasögu landsins. Upphaf þess er að rekja til þingfararbálks Járnsíðu frá 1271 og síðar Jónsbókar frá 1281. Segja má að þetta tímabil haldist allt til ársins 1800 er Landsyfirrétturinn var stofnaður. Því má skipta í tvennt.Á fyrri hluta þess voru dómstigin innanlands tvö: héraðsdómur og lögrétta. Lögrétta var aðallega áfrýjunardómstóll, en dæmdi þó einnig í málum á fyrsta dómstigi. Á þessu tímabili voru lögréttumenn alls 84, en lögmenn kvöddu 36 af þeim til setu í lögréttu hverju sinni og nefndu síðan 6, 12 eða 24 til að dæma hvert mál. Málum mátti einnig skjóta til úrskurðar Noregskonungs, "með skynsamra manna ráði." Stóð þetta fyrirkomulag á skipan æðri dómstiga á landinu í um 300 ár. Á þessu tímabili tóku sýslumenn að dæma í málum á lægsta dómstigi, ásamt meðdómendum eða nefndarmönnum.
Árið 1563 kom út tilskipun hingað til lands um stofnun yfirréttar á Alþingi. Samkvæmt henni átti höfuðsmaður að skipa 24 manna dóm, sem fór lögum samkvæmt með æðsta dómsvald innanlands.
„Í upphafi tilskipunarinnar segir, að almúginn og íbúar Íslands hafi þegnlega látið tjá konungi að lögmennirnir dæmdu allmarga dóma er ekki væru réttlátir. Í annan stað er ástæðan til tilskipunarinnar sögð sú að gera fátækum mönnum, sem ekki megna að skjóta málum sínum undir konung, mögulegt að ná rétti sínum.”
Um það vitnar Varnarrit Guðbrandar biskups, þar sem segir:„En svo bar til að við síra Arngrímur áttum klögumál við Jón Ólafsson um Hól og Bessastaði, þá dæmdu þeir lögmenn það bréf nýtt og myndugt, sem við Arngrímur vissum fyrir lifandi Guði, að var eitt falsbréf. Það klagaði ég fyrir höfuðsmanni og bað hann að nefna út XXIIII menn upp á þann lögmannadóm; hann fór undan með vefjum og flýtum, sagðist vilja sjá það kóngsbréf, sem hann vel vissi af og hans bróðir hafði haft inn í landið. Ég hafði copium þar af og sætti því ekki, og fyrr svoddan órétt neyddist ég þá til að klaga mig fyrir kóngl. maj. og þegar hans náð vissi öll lélegheit og að þeir höfðu kastað því bréfi undir bekk, endurnýjaði kóngl. maj það aftur, og bað þá ekki leyfis. Þannig kom þetta bréf aftur inn í landið vegna óréttinda, sem höfuðsmaður gjörði mér og sé þetta bréf á móti lögum og syndsamlegt, þá hefir sá meiri og stærri synd, sem það fyrst útvegaði.”
Við skulum svipast um á Alþingi á þessu tímabili með Halldóri Laxness. Hann segir í upphafi Íslandsklukkunnar:
„Sú var tíð, segir í bókum, að íslenska þjóðin átti aðeins eina sameign sem metin var til fjár. Það var klukka. Þessi klukka hékk yfir gafli lögréttuhússins á Þingvöllum við Öxará, fest við bjálka upp í kverkinni. Henni var hringt til dóma og á undan aftökum. ...Að viðstöddum landfógeta, lögmanni og böðli, og manni sem átti að höggva og konu sem átti að drekkja, mátti oft á kyrrum degi um jónsmessubil, í andvara af Súlum og kjarrlykt úr Bláskógum, heyra óm klukkunnar blandinn niði Öxarár.”
Á Alþingi árið 1705 var klukkunni hringt til dóma sem löngum fyrr. Saman kom lögrétta og þar var tekið fyrir mál Jóns Þórarinssonar þjófs frá Vífilsdal. Í Alþingisbókinni segir að hann hefði:
„... meðkennt að hafa launtekið frá Vatni í Haukadal, út úr læstu húsi, átta stikur sortað vaðmál, tvær klæðishettur, aðra svarta forna, en aðra gráa, item eitt brekán hringofið og eina sauðsvarta stutthempu og karlmannsbuxur með sama lit og eina karlmannssokka og tvo trefla, annan bláan en hinn mislitan.”
Lögþingismennirnir voru ekki í neinum vafa um að Jón væri sannprófaður að fullkomnum merkurstuldi. Þar sem þessi stuldur var sá fyrsti sem hann hafði orðið uppvís af skyldi hann þó ekki straffast á lífinu í þetta sinn,
„... heldur vera útlægur af landinu og hafa misst sinn frið og ábyrgist sjálfur hversu honum lukkast af landinu burt að rýma, og sé honum frestur unntur til þess, allt fram til næstkomandi 15. nóvembris, hálfum mánuði eftir allraheilagamessu. En verði þessi Jón Þórarinsson hér í landinu fundinn eftir áðurnefndan 15. nóvembris þá skal hann grípast hvar sem hann verður staddur og færast þeim næstasýslumanni.”
Í niðurlagi dómsins er lýst auðkennum Jóns Þórarinssonar þeim til upplýsingar sem á hann kynnu að rekast á landinu eftir nefndan dag. Þau eru:
„... meðalmaður vexti, dökkjarpur á hár, kringluleitur, brúnadökkur, rauðleitur í andliti, blóðdökkur, smáeygður, munnstór, með lítið sprottinn dökkan kamp, frammynntur, með uppbretta efri vörina, þykkvari þeirri neðri, hökusmár, nefdigur og það sívalt, ógeðslegur í útliti, hraustlegur, þykkvaxinn, álútur í framgöngu, herðamikill, kálfaþykkur, ei ófallega á fót komið.”
Ef marka má orð Magnúsar Stephensen hafði dregið verulega úr virðingarbragnum yfir yfirréttinum á síðari hluta 18. aldar og hafði hann þó aldrei risið hátt. Sem fyrr reyndist erfitt að skipa dóminn hæfum mönnum.
Um það segir Magnús, sem þá var orðinn lögmaður:
"Meðdómendur hefir orðið að tína saman úr ferðamannaslangri, sem statt var á lögþinginu ..., og dómurinn hefir ekki orðið fullskipaður stundum, nema fengnir væru til lögréttumenn og bændur. Þessir meðdómendur, sem kallað var að sætu í dóminum, þekktu ekkert til málanna, sem dæma átti. ... Þegar talið er, að menn sitji og greiði dómsatkvæði, þá er í rauninni geispað og gapað af leiðindum. ... Málflutingur er að mestu fólginn í hnýfilyrðum, sem fávísir málflytjendur hreyta hver í annan."
Ekki var húsnæði réttarins til að auka á virðingu hans. Á Þingvöllum hafði lengi staðið lítið timburhús, lögréttuhúsið, þar sem dómþing voru haldin. Árið 1787 er ástand hússins til umræðu hjá yfirvöldum. Í bréfi til yfirvalda í Danmörku er talið óhjákvæmilegt að láta fara fram viðgerð á lögréttuhúsinu.
„En lögréttuhúsið var svo farið, að eigi virtust tök á að þar yrði réttur haldinn næsta sumar án aðgerðar, nema áður væri trygging fyrir óvenjulegri veðurblíðu um þingtímann, líkt og sumarið 1786, en þá mátti einu gilda hvort rétturinn var haldinn inni eða undir berum himni. Sögðu menn að betra væri að halda réttinn í tjaldi eða undir berum himni en í lögréttuhúsinu sökum dragsúgs þar.”
V. Tímabil landsyfirréttarins 1800-1920
Á síðari hluta 18. aldar var orðið ljóst, að dómaskipan landsins þyrfti endurnýjunar við. Hana þurfti að einfalda með því að fækka áfrýjunardómstólum innanlands úr tveimur í einn, um leið og meðferð mála yrði bætt og réttaröryggi aukið. Landsyfirrétturinn var stofnaður í Reykjavík árið 1800, en Magnús Stephensen beitti sér mjög fyrir því að færa dómsvaldið frá Þingvöllum til hins vaxandi höfuðstaðar landsins. Þar hefur framsýni hans ráðið för, en honum þótti hinn forni þingstaður aukinheldur ljótur. Landsyfirrétturinn fór með æðsta dómsvald innanlands í 120 ár, en dómum hans mátti áfrýja til Hæstaréttar í Kaupmannahöfn.
Magnús Stephensen, höfundur Landsyfirréttarins eins og Björn Þórðarson kallar hann, en morðingi Alþingis eins og Bjarni Thorarensen kallaði hann eitt sinn, var fyrsti dómstjóri Landsyfirréttarins. Fljótlega var ljóst að dómstjórinn var ákveðinn í að taka til hendinni í réttarfarsmálum landsmanna. Árið 1802 fékk Landsyfirdómurinn til meðferðar þjófnaðarmál Jóns Jónssonar frá Yzta-Gerði, konu hans og Sigfúsar Þorleifssonar frá Hlíðarhaga. Jón sýslumaður Jakobsson að Espihóli hafði kveðið dóminn upp.
Í upphafi setur Landsyfirdómurinn út á margt í rannsókn málsins, en síðar greinir þar: „Það er annars ekki í einu, heldur flestu, sem þessi process og dómur, að hjeraðsdómarans leyti, er hroðalega af hendi leystur.”
Margar athugasemdir eru gerðar svo sem um yfirheyrslu vitna og eiðtöku, stefnubirtingu, um þinghald fram á nætur, meðferð þingskjala, málfar og frágang dóms. Þótti dómurum Landsyfirréttarins þetta allt hið mesta klúður og skömmuðust mjög yfir.
„Loksins hefur hjeraðsdómarinn fylt sinn dóm með óviðkomandi heimsku-bulli um öreiga giptingar, dómstóla meiningar og annað, og heimildarlaust skapað sjer lög, ...”
En þar sem þjófnaðurinn annars að miklu leyti þótti fullyfirbevísaður sakapersónunum Jóni, Rósu og Sigfúsi, voru þau þrátt fyrir allt sakfelld. Dómurinn var þó mildaður. Enn fær sýslumaður á baukinn í dómsorðinu. „Hjeraðsdómarinn, sýslumaður Jón Jakobsson, betali fyrir heimskulegan dóm 1 rdl. til Jústitskassans. Sömuleiðis bæti hann fyrir afglapanir og forsómun í að vitna eftir boði tilskipunar 3. júní 1796 § 35, í dómi sínum, hvort við málsins rekstur og meðferð í hjeraði, sé nokkur forsómun sýnd eður ei, 20 rdl. til Saurbæjarhrepps í Eyjafirði.”
Fyrsta húsnæði Landsyfirréttarins var í skólahúsinu að Hólavelli. Það þótti vond vist og ekki taka mikið fram vistinni í lögþingishúsinu á Þingvöllum, nema síður væri. Húsið á Þingvöllum þurfti aldrei að nota um vetrartímann, en Landsyfirrétturinn var einnig haldinn á vetrum. Raunar var húsið ekki lengur talið hæft til skólahalds þegar rétturinn fékk það til afnota og beið niðurrifs. Þá var þar fátt húsgagna. Þurfti oft að halda réttinn í skólahúsinu fyrir opnum gluggum í dragsúg frá dyrum og gólfum, og í óupphituðu herbergi.
Við stofnun Landsyfirréttarins var reyndar fyrirhugað að byggja sérstakt hús yfir réttinn í Reykjavík, og var honum því komið fyrir í Hólavallarskóla til bráðabirgða. Danskur arkitekt gerði teikningar af húsinu árið 1802. Fallið var frá byggingaráformum vegna kostnaðar, en þess í stað var leitað að heppilegu húsi í bænum til afnota fyrir réttinn.
Í ársbyrjun 1807 gerði ægilegar vetrarhörkur, norðanáhlaup með dimmviðrum og brunagaddi dag eftir dag. Réttvísin varð samt að hafa sinn framgang þótt hús væru köld og óvistleg. Gekk svo fram í febrúar, en þann 3. þess mánaðar höfðu lögspekingarnir fengið nóg.
Í þingbókinni þann dag stendur skrifað:
„Anno 1807, þann 3. febrúar var landsyfirréttarins session í hr. stiftamtmanns, greifa Trampe húsi, hverjum til réttarhalds þóknaðist nú og framvegis nokkurn tíma að eftirláta réttinum stofu sína, þar ófært reyndist vegna harðviðra, dragsúgs og frostgrimmdar að halda réttinn í þeirri gömlu opnu skólabyggingu.”
Þá fundu þeir sig knúna til að skrifa yfirvöldunum í ríki Danakonungs. Segir þar:
„1807: En i Dag rasende Storm og höjst poeneterende Kulde gjör det for Liv og Helbred farligt for Rettens svaglige Medlemmer at holde Session i det saa höjt liggende for Blæst og Træk gennem aabne Vinduer, Gulv og Dör, udsatte Skoleværelse, denne Gang. Vi skulde derfor ærbödigst fornemme om Deres Höjvelborenhed maatte kunne anvise Retten til denne Lejlighed eller i manglende Fald, om der kan være noget imod at Session holdes denne gang i Justitiarii Logie.”
Í kjölfar þessara atburða var keypt á uppboði verslunarhús í Reykjavík, sem síðar varð Austurstræti 4. Var því breytt til afnota fyrir réttinn.
Þá var gerður reki að því að útvega húsgögn, svo ódýr sem kostur var.
Var réttarsalurinn í þessu húsi síðan um nokkra hríð helsti samkomustaður bæjarins, notaður til dansleikja og leiksýninga og við slík tækifæri notast við bekkina úr dómkirkjunni.
Urðu sumir til að hneykslast á því að eignir kirkjunnar og réttarsalurinn skyldu með þessum hætti notuð af andvaralausum lýð til fánýts og skaðsamlegs gleðskapar.
Um 1820 fékk rétturinn til afnota gamla stiftamtmannshúsið við Austurstræti, sem ennþá stendur í breyttri mynd, en þá hafði fangahúsið verið tekið undir stiftamtmanninn. Árið 1873 fékk rétturinn húsnæði í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg, á efri hæð þess inn að garðinum. Þar var rétturinn enn til húsa þegar Hæstiréttur var stofnaður 1920.
Síðustu dómarnir í Landsyfirdóminum voru kveðnir upp 22. desember 1919. Þá var dómstjóri Kristján Jónsson, sem einnig varð fyrsti forseti Hæstaréttar. Í ræðu rakti hann starf dómstólsins þá rúmu öld sem hann hafði starfað. Hlutverk hans hafi verið að legja úrskurði á réttarþrætur borgaranna og dæma misgerninga.
Hvernig til hafi tekist megi um deila, segir hann, en leggur þó áherslu á tvennt:
„ ...það fyrra, að mér virðist dómstóllinn hafa verið á framfararskeiði allan tímann, frá því að hann hóf starfsemi sína og til þessa dags; virðist mér þetta koma greinlega í ljós, er dómar réttarins fyrr og síðar eru lesnir með gaumgæfni, enda er þetta í samræmi við hið eðlilega lögmál, að niðjarnir byggja á og færa sér í nyt, styðjast við og draga lærdóm af verkum forfeðranna; og það hið síðara, að ég þykist fullyrða fyrir eigin reynslu, að almenningur haft gjarnan og með fullu trausti lagt málefni sín undir úrskurð réttarins.”
V. Stofnun Hæstaréttar Íslands
Aðdragandi að stofnun Hæstaréttar Íslands var all langur og mjög samofinn sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar á 19. öld. Ein krafan var að sjálfsögðu sú, að æðsta dómsvald í íslenskum málum yrði flutt inn í landið. Kom þessi krafa um innlent æðsta dómsvald í íslenskum sérmálum fyrst fram á þjóðfundinum 1851. Allan síðari hluta 19. aldar var málinu hreyft aftur og aftur, en náði ekki fram að ganga.
Með sambandslögunum frá 1918 fékk Ísland síðan viðurkenningu á fullveldi sínu og tók í sínar hendur bæði framkvæmdar- og löggjafarvaldið. Í 10. gr. þeirra var ákveðið, að Hæstiréttur Danmerkur skyldi hafa á hendi æðsta dómsvald í íslenskum málum, þar til Íslendingar kynnu sjálfir að stofna sinn eigin dómstól. Íslendingar hófust þegar handa um að nýta sér þessa heimild í sambandslögunum.
Var prófessor Einari Arnórssyni falið að semja frumvarp til laga um Hæstarétt og var það lagt fyrir Alþingi árið 1919 og samþykkt þar að mestu óbreytt.
Í ræðu sem Sveinn Björnsson, þá málafærslumaður, hélt fyrir hönd lögmanna við fyrstu setningu Hæstaréttar endurspeglast vel hversu þessi atburður var talinn samofinn sjálfstæðisbaráttunni:
„Háu dómendur!
Þessi stund mun jafnan talin merkisstund í sögu íslenzku þjóðarinnar. Sú stund er æðstu dómendur í íslenzkum málum taka aftur sæti til dóma á fósturjörð vorri. Þessi atburður, sem hér á sér stað nú í dag, hlýtur að vekja fögnuð í hjörtum allra Íslendinga. Hann er einn af áþreifanlegu vottunum um að vér höfum aftur fengið fullveldi um öll vor mál.”
Í upphafi skipuðu Hæstarétt dómstjóri og 4 meðdómendur, sem skipaðir voru af konungi á ábyrgð ráðherra. Fjöldi dómara hefur verið breytilegur. Síðast var dómurum fjölgað við Hæstarétt árið 1994 og eru þeir nú 9 talsins.
Málflutningur fyrir Hæstarétti var frá upphafi munnlegur. Það var nýlunda hér á landi. Kristján Jónsson, fyrsti forseti réttarins, sem þá var kominn á efri ár, var ekki að öllu leyti sáttur við þetta, enda alls óvanur munnlegum málflutningi. Í endurminningum Sveins Björnssonar kemur fram að hann átti tal við Kristján um munnlegu málfærsluna. Þá átti Kristján að hafa sagt:
„Blessaðir farið nú ekki að halda langar ræður. Þið megið vita, að við byggjum dóm okkar á dómsgjörðum, sem eru skrifaðar. Þar er eitthvað að halda sér að. Hvernig eigum við að muna það sem þið kunnið að segja? Maður freistast til að hlusta ekki á ykkur.”
Síðan þessi orð voru mælt hefur runnið mikið vatn til sjávar og menn eru nú almennt sammála um ágæti munnlegs málflutnings fyrir réttinum. Ætla má þó að enn myndu dómarar réttarins taka undir það heilræði Kristjáns Jónssonar til hæstaréttarlögmanna að halda ekki langar ræður.
Í orðum dr. Þórðar Eyjólfssonar, forseta Hæstaréttar á 25 ára afmæli réttarins 1945, kemur glögglega fram, á hvern hátt hæstaréttardómarar hafa litið starf sitt.
Hann sagði: „En hitt má oss aldrei úr minni falla, að mestar kröfur ber oss að gera til sjálfra vor. Starfi voru fylgir mikil ábyrgð. Þegar mál hefur verið hér sótt og varið og dómur á það lagður, verður þeirri úrlausn ekki síðar haggað. Það má aldrei bregðast, að við hvert mál, smátt sem stórt, sé lögð hin fyllsta alúð og allt gert, sem í voru valdi stendur, er tryggi rétta úrlausn þess samkvæmt landslögum og rétti. Með því móti einu getum vér vænzt þess, að dómstóllinn njóti trausts þjóðarinnar og verði um ókomna tíma vanda sínum vaxinn.”
Á 75 ára afmæli Hæstaréttar er ekki úr vegi fyrir Íslendinga að huga að mikilvægi óháðs dómsvalds og réttaröryggis. Minnast má orða Einars Arnalds, sem var forseti Hæstaréttar á 50 ára afmæli hans.
„Á Hæstarétti hvíla þær skyldur að heiðra þann meginrétt, sem stjórnskipun okkar er reist á. Fjöldi þjóða býr ekki enn við réttaröryggi, en reynsla kynslóðanna kennir, að óháð dómsvald er frumskilyrði þess, að heilbrigt þjóðlíf geti þróazt. Helgustu mannréttindi verða ekki í raun tryggð nema í skjóli sjálfstæðs og óhlutdrægs dómsvalds.”