Heimildir til áfrýjunar til Hæstaréttar að fengnu áfrýjunarleyfi,
tímafrestir og skilyrði fyrir veitingu leyfis 

 

 Lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála
Áfrýjun á dómi Landsréttar til Hæstaréttar

    Samkvæmt 176. gr. laga nr. 91/1991 er aðila máls heimilt að óska eftir leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar. Skal viðkomandi senda Hæstarétti umsókn um slíkt leyfi innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms, sbr. 1. mgr. 177. gr. og 1. mgr. 178. gr. laga nr. 91/1991. Á grundvelli 2. mgr. 177. gr. sömu laga getur Hæstiréttur orðið við umsókn um leyfi til að áfrýja dómi sem berst næstu fjórar vikur eftir lok frestsins samkvæmt 1. mgr. 177. gr., enda sé dráttur á áfrýjun nægjanlega réttlættur. 
    Við mat á því hvort áfrýjunarleyfi verði veitt skal Hæstiréttur líta til eftirfarandi skilyrða, sbr. 1. mgr. 176. gr.:
    - hvort úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi eða
    - hvort úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þess sem leitar áfrýjunarleyfis.
Þá getur Hæstiréttur veitt leyfi til áfrýjunar ef ástæða er til að ætla að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni.

Áfrýjun á dómi héraðsdóms til Hæstaréttar

    Samkvæmt 175. gr. laga nr. 91/1991 er aðila heimilt að óska eftir leyfi til að áfrýja dómi héraðsdóms beint til Hæstaréttar. Beiðni um slíkt leyfi skal koma fram í áfrýjunarstefnu sem lögð er fyrir Landsrétt. Jafnframt skal sá sem óskar eftir leyfi Hæstaréttar til áfrýjunar senda umsókn ásamt áfrýjunarstefnu til Hæstaréttar í síðasta lagi þegar áfrýjunarstefna er lögð fyrir Landsrétt, sbr. 155. gr. laga nr. 91/1991. 
    Frestur til að áfrýja dómi héraðsdóms til æðri dóms er fjórar vikur frá uppkvaðningu hans, sbr. 153. gr. laga nr. 91/1991. Af ofangreindu leiðir að sækja skal um leyfi til að áfrýja dómi héraðsdóms til Hæstaréttar innan sama tímamarks, en þó að því gættu að umsóknin skal berast í síðasta lagi þegar áfrýjunarstefna er lögð fyrir Landsrétt.
    Samkvæmt 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 skal framangreint leyfi ekki veitt nema þörf sé á að fá endanlega niðurstöðu Hæstaréttar með skjótum hætti og einhverju eftirtalinna skilyrða sé fullnægt:
    - niðurstaðan geti verið fordæmisgefandi, 
    - niðurstaðan geti haft almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna eða 
    - niðurstaðan geti haft verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti.
Þá skal slíkt leyfi ekki veitt ef málsaðili telur þörf á að leiða vitni í málinu á áfrýjunarstigi eða enn er uppi ágreiningur um sönnunargildi munnlegs framburðar sem gefinn var fyrir héraðsdómi.
    Hafi Hæstiréttur veitt leyfi til áfrýjunar á þessum grundvelli getur hann afturkallað það ef í ljós kemur undir rekstri málsins að þörf er á að leiða vitni í málinu eða enn er uppi ágreiningur um sönnunargildi munnlegs framburðar sem gefinn var fyrir héraðsdómi, sbr. 3. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991.


 Lög nr. 88/2008 um meðferð sakamála
Áfrýjun á dómi Landsréttar til Hæstaréttar

    Samkvæmt 1. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 er unnt að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar til þess að fá:
    a. endurskoðun á ákvörðun viðurlaga, 
    b. endurskoðun á niðurstöðum sem byggðar eru á skýringu eða beitingu réttarreglna, 
    c. endurskoðun á niðurstöðum sem byggðar eru á mati á sönnunargildi annarra gagna en munnlegs framburðar fyrir héraðsdómi eða         Landsrétti, sbr. og 5. mgr. 215. gr.,
    d. ómerkingu á héraðsdómi og dómi Landsréttar og heimvísun máls,
    e. frávísun máls frá héraðsdómi og Landsrétti.

    Ákærði skal senda umsókn um leyfi til áfrýjunar til ríkissaksóknara innan fjögurra vikna frá birtingu dóms, ef birtingar var þörf samkvæmt 3. mgr. 185. gr. laganna, en ella innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins, sbr. 2. mgr. 217. gr. laga nr. 88/2008. Ríkissaksóknari sendir Hæstarétti umsókn ákærða um áfrýjunarleyfi og fylgir henni jafnan afstaða ríkissaksóknara til beiðninnar. 
    Ríkissaksóknari skal, vilji hann áfrýja dómi Landsréttar, senda Hæstarétti skriflega umsókn um áfrýjunarleyfi innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms Landsréttar, sbr. 3. mgr. 217. gr. laga nr. 88/2008. 
    Hafi ekki verið óskað eftir leyfi til áfrýjunar innan þeirra fresta sem kveðið er á um í 2. og 3. mgr. 217. gr. getur Hæstiréttur orðið við umsókn um leyfi til að áfrýja landsréttardómi sem berst næstu þrjá mánuði eftir lok áfrýjunarfrests, enda sé dráttur á áfrýjun nægilega réttlættur.
    Samkvæmt 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 skal áfrýjunarleyfi aðeins veitt ef öðru eftirfarandi skilyrða er fullnægt:
    - áfrýjun lýtur að atriði sem hefur verulega almenna þýðingu, eða
    - áfrýjun lýtur að atriði sem af öðrum ástæðum er mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um.
Þá getur Hæstiréttur veitt leyfi til áfrýjunar ef ástæða er til að ætla að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Enn fremur skal verða við beiðni ákærða, eða ákæruvaldsins honum til hagsbóta, um áfrýjunarleyfi í tilvikum þar sem ákærði hefur verið sýknaður af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur í Landsrétti, nema Hæstiréttur telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar. 

Umsókn um áfrýjunarleyfi í einka- og sakamálum

Uppbygging umsóknar

    Í upphafi umsóknar er æskilegt að gerð sé grein fyrir því í stuttu máli hvert umfjöllunarefni málsins er en ekki er nauðsynlegt að útlista málsatvik með nákvæmum hætti þar sem þau eru almennt rakin í þeim dómi sem óskað er áfrýjunar á. Þess ber þó að geta ef ágreiningur er um málsatvik eða ef umsækjandi telur að ekki hafi verið gerð nægileg grein fyrir þeim í dóminum. 
    Í umsókn um áfrýjunarleyfi skal vísa til þess lagaákvæðis sem umsækjandi byggir beiðni sína á. Hafa ber í huga að skilyrði fyrir veitingu áfrýjunarleyfis eru mismunandi eftir því á grundvelli hvaða lagaákvæðis sótt er um. Þá er Hæstarétti óheimilt að að veita leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar til endurskoðunar á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar í sakamálum, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Í umsókn um leyfi til áfrýjunar á sakamáli er því æskilegt að til viðbótar sé vísað til þess stafliðs 1. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 sem umsækjandi hyggst byggja áfrýjun sína á.
    Í umsókninni skal færa rök fyrir því hvernig umsækjandi telur skilyrðum fyrir veitingu áfrýjunarleyfis vera fullnægt. Forðast skal málalengingar og röksemdum beint að því einu sem varðar skilyrðin fyrir veitingu áfrýjunarleyfis. Ef byggt er á fleiri en einu skilyrði skal gera grein fyrir þeim öllum. Vísa skal til helstu réttarreglna eftir því sem við á. Jafnframt er æskilegt að geta þess í umsókninni hyggist sá sem áfrýja vill dómi leggja fram ný gögn fyrir Hæstarétti og þá í hvaða tilgangi.
    Byggi umsækjandi á því að álitaefni málsins hafi slíka þýðingu að nauðsynlegt sé að Hæstiréttur skeri úr um, svo sem að þau hafi verulega almenna þýðingu eða fordæmisgildi, ber að rökstyðja hvers vegna þörf er á að Hæstiréttur taki málið til meðferðar. Í slíkum tilvikum getur til að mynda komið til skoðunar hvort ósamræmi sé í framkvæmd hjá stjórnvöldum eða dómstólum, hvort um sé að ræða álitaefni sem Hæstiréttur hefur ekki tekið afstöðu til og fleiri sambærileg mál bíða meðferðar fyrir dómstólum eða hvort fyrir hendi séu aðrir þættir sem gefa vísbendingar um mikilvægi álitaefnisins. Sé beiðni um leyfi til áfrýjunar byggð á framangreindu en jafnframt ljóst að áfrýjun mun lúta hvoru tveggja að mati á sönnun og beitingu lagaákvæða er mikilvægt að leitast sé við að tryggja að hin lögfræðilegu álitaefni málsins komi skýrt fram. Þetta gildir sérstaklega í málum sem eru mjög atviksbundin.
    Í 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 og 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 er jafnframt mælt fyrir um að Hæstiréttur geti veitt leyfi til áfrýjunar ef ástæða er til að ætla að meðferð máls fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Byggi umsækjandi á því að skilyrði sem þessi séu fyrir hendi í málinu ber að gera grein fyrir helstu röksemdum í því sambandi og af hverju þær eiga að leiða til þess að skilyrðunum um að málsmeðferð hafi verið „stórlega“ ábótavant eða að dómur sé „bersýnilega“ rangur verði talið fullnægt. 

Fylgigögn umsóknar

    Umsókn um leyfi til áfrýjunar í einkamálum skulu fylgja tvö eintök áfrýjunarstefnu sem umsækjandi vill fá gefna út og endurrit þess dóms sem óskað er áfrýjunar á, sbr. 1. mgr. 178. gr. laga nr. 91/1991.
    Umsókn ákærða um leyfi til áfrýjunar í sakamálum skal fylgja skrifleg tilkynning um áfrýjun þar sem tekið er nákvæmlega fram í hverju skyni áfrýjað sé og hverjar dómkröfur ákærða séu, þar á meðal varðandi kröfur samkvæmt XXVI. kafla laga nr. 88/2008 ef því er að skipta, svo og hvern hann vill fá skipaðan sem verjanda fyrir Hæstarétti eða hvort hann óskar eftir að flytja mál sitt sjálfur, sbr. 2. mgr. 217. gr. laga nr. 88/2008. Jafnframt er nauðsynlegt að umsókn fylgi endurrit þess dóms sem óskað er áfrýjunar á. 

 Umsögn gagnaðila

    Hæstiréttur gefur öðrum málsaðilum en þeim sem sækir um áfrýjunarleyfi kost á að tjá sig um umsóknina áður en ákvörðun er tekin, sbr. 1. mgr. 175. gr. og 3. mgr. 178. gr. laga nr. 91/1991 og 4. mgr. 217. gr. laga nr. 88/2008. Að jafnaði er frestur gagnaðila ákveðinn tvær vikur. 
    Æskilegt er að í umsögninni komi fram skýr afstaða til beiðninnar, þ.e. hvort fallast eigi á hana eða ekki. Þá skal gagnaðili fjalla um afstöðu sína til þeirra lagaskilyrða sem umsækjandi telur að sé fullnægt svo leyfi verði veitt. Hafi umsækjandi talið að fleiri en einu skilyrði til veitingar áfrýjunarleyfis sé fullnægt í málinu er æskilegt að fjallað sé um hvert og eitt skilyrði fyrir sig. Afstöðu gagnaðila skal rökstyðja og vísa til helstu réttarheimilda. Forðast skal málalengingar og röksemdum beint að því einu sem varðar skilyrðin fyrir veitingu áfrýjunarleyfis eftir því sem beiðni um áfrýjunarleyfi gefur tilefni til. Sé gagnaðili ekki sammála lýsingu umsækjanda á málsatvikum ber að vekja athygli á því að því leyti sem það hefur þýðingu fyrir meðferð beiðninnar. Þá getur einnig verið gagnlegt að vísa til tiltekinna forsendna í þeim dómi sem óskað er áfrýjunar á, telji gagnaðili þær eiga að standa og styðji að ekki eigi að fallast á beiðni um áfrýjunarleyfi. 
    Telji gagnaðili rétt að fallist verði á beiðnina, til dæmis í þeim tilgangi að fá afstöðu Hæstaréttar til álitaefnis sem hafi verulega almenna þýðingu, ber að gera grein fyrir því og rökstyðja.
    Telji gagnaðili að ekki beri að fallast á beiðnina, ber að gera grein fyrir því hvers vegna hann telur skilyrðum fyrir veitingu áfrýjunarleyfis ekki fullnægt. Að því er varðar skilyrðið um að málið hafi almenna þýðingu eða fordæmisgildi ber gagnaðila að færa rök fyrir þeim atriðum sem að hans mati gera málið ekki til þess fallið að Hæstiréttur taki það til meðferðar eða að niðurstaða Hæstaréttar hafi takmarkaða þýðingu. 

 Lyktir máls

    Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla taka þrír hæstaréttardómarar ákvörðun um hvort áfrýjunarleyfi verði veitt. Ákvörðunin er færð í gerðabók og eftir atvikum færðar röksemdir fyrir henni.
    Sé fallist á beiðni um áfrýjunarleyfi tilkynnir Hæstiréttur aðilum um það bréflega. Verður Hæstiréttur ekki krafinn um rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun, sbr. 4. mgr. 178. gr. laga nr. 91/1991 og 4. mgr. 217. gr. laga nr. 88/2008.
    Í einkamálum gefur Hæstiréttur áfrýjunarstefnuna sem fylgdi umsókn út og áritar hana um leyfisveitinguna, sbr. 4. mgr. 178. gr. laga nr. 91/1991. Hæstiréttur heldur eftir einu eintaki áfrýjunarstefnu, en áfrýjandi fær frumrit afhent.
    Í sakamálum gefur ríkissaksóknari út áfrýjunarstefnu í samræmi við ákvæði 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008. 
    Sé umsókn um áfrýjunarleyfi synjað tilkynnir Hæstiréttur aðilum um það bréflega og greinir frá ástæðum þess að ekki var fallist á beiðnina, sbr. 5. mgr. 178. gr. laga nr. 91/1991 og 4. mgr. 217. gr. laga nr. 88/2008. Fylgir endurrit ákvörðunarinnar með bréfinu.